Erlent

Sjálfsvígstilraun sett á svið

Fangar í Guantanamo fangabúðunum settu á svið sjálfsvígstilraun til að auðveldara yrði fyrir þá að ráðast á fangaverði í búðunum fyrir helgi. Bandarískum hermönnum tókst að brjóta árásina á bak aftur á skömmum tíma. Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna lagði til í gær að búðunum yrði lokað en Bandaríkjamenn segja árásina sýna hve hættulegir fangarnir þar séu.

Í skýrslu nefndarinnar í gær segir að fangabúðirnar séu ólöglegar og brjóti gegn alþjóðsamningi um bann við pyntingum. og því beri að loka þeim. Þar eru um 460 fangar og hafa þeir mátt dúsa þar síðastliðin fimm ár án dóms og laga. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að mörg atriði í skýrslunni væru röng og skýrslan ónákvæm á köflum.

Nokkrum klukkustundum eftir að skýrslan var gerð opinber bárust fréttir af tilraun fanga í Guantanamo til uppreisnar á fimmtudaginn. Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjaher settu fangarnir á svið sjálfsvígstilraun og þegar hermenn og fangaverðir reyndu að koma í veg fyrir að hún heppnaðist réðust aðrir fangar á þá með grófgerðum vopnum sem þeir höfðu sjálfir smíðað úr viftum, ljósabúnaði og öðrum sem hendi hefur verið næst. Þeir voru búnir að bera sápu og annað sleypiefni á gólfið í álmunni til að fangaverðirnir myndu fipast.

Talsmaður hersins segir að auðveldlega hafi reynst að binda enda á þessa uppreisnartilraun og það á skömmum tíma. Sex fangar munu hafa særst í átökunum en ekki er vitað hvort hermenn eða fangaverði sakaði. Bandaríkjaher segir árásina fyrir helgi hafa verið þaulskipulagða.

Nokkru fyrir árásina tóku tveir aðrir fangar of stóran lyfjaskammt en var bjargað. Á fjórða tug fanga hafa reynt að svipta sig lífi í fangabúðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×