Innlent

Segir Björn Inga á barmi taugaáfalls

Össur Skarphéðinsson segir aðstoðarmann forsætisráðherra tala í umboði ráðherrans, þegar hann hótar því að slakt gengi Framsóknarflokks í komandi kosningum muni bitna á ríkisstjórnarsamstarfinu. Ummæli Björns Inga Hrafnssonar í gær bera þess merki að þar tali maður á barmi taugaáfalls segir þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Björn Ingi sagði í gær að ef Framsóknarflokkurinn næði ekki inn manni í borgarstjórn í vor myndi það hafa alvarleg áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Framsóknarmenn myndu ekki sitja undir því að taka einir á sig óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Í þættinum Skaftahlíð á NFS í dag útskýrði Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokks ummæli Björns Inga með því að þar talaði maður sem væri nánast á barmi taugaáfalls.

Sigurður Kári segist ekki trúa því að forysta Framsóknarflokksins sé sama sinnis og Björn Ingi, enda standist skýringar hans á slöku gengi flokksins í borginni ekki nánari skoðun. Össur Skarphéðinsson er á öðru máli. Hann telur öruggt að Björn Ingi hafi talað í umboði forystu flokksins.

Hvað sem öðru líður sína ummæli aðstoðarmanns forsætisráðherra frá því í gær að úrslitin í sveitastjórnarkosningunum gætu haft veruleg áhrif á landsmálin. Ekki síst ef Framsóknarflokkurinn kemur jafnilla út og skoðanakannanir benda til. Sigurður Kári telur að ef svo færi yrði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra að hugsa sinn gang vandlega. Össur tekur í sama streng og segir að ef Framsóknarflokkurinn næði ekki inn manni væri það áfellisdómur þjóðarinnar yfir flokknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×