Erlent

Ráðherraskipan í Írak samþykkt

Fólk bíður frétta af ættingjum sínum og ástvinum fyrir utan sjúkrahús í Bagdad í morgun.
Fólk bíður frétta af ættingjum sínum og ástvinum fyrir utan sjúkrahús í Bagdad í morgun. MYND/AP

Íraska þingið samþykkti í morgun skipan nýrrar þjóðstjórnar í landinu. Vonir eru bundnar við að henni takist að lægja öldurnar þar. Ofbeldisverkum virðist ekki ætla að fækka en minnst 19 féllu og um 60 særðust í sprengjuárás í Bagdad í morgun.

Þingmenn komu saman til fundar í morgun en Nouri al-Maliki, verðandi forsætisráðherra, kynnti ráðherralista sinn í gær. Um er að ræða þjóðstjórn sjía, súnnía og kúrda. Það er þó ljóst að erfitt verk bíður verðandi forsætisráðherra þar ekki hefur tekist að komast að samkomulagi um skipan í embætti varnar- og innanríkisráðherra. Leiðtogar fylkinganna munu því fyrst um sinn skiptast á að fara fyrir þeim ráðuneytum.

Súnníar, sem eru í minnihluta, vilja fá varnarmálaráðuneytið sem stjórnar hernum en sjíar, sem eru í meirihluta, vilja fá innanríkisráðuneytið sem stýrir lögreglunni.

Bandarísk stjórnvöld binda vonir við að nýrri stjórn takist að lægja öldurnar í landinu og fækka ofbeldisverkum svo hægt verði að undirbúa brotthvarf Bandaríkjahers frá Írak.

Ljóst er að ofbeldisverkum fækkar ekki og ný stjórn hefur ærið verk fyrir höndum. Að minnsta kosti 19 féllu og hátt í 60 særðust í sprengjuárás í hverfi sjía í Bagdad í morgun. Þar höfðu verkamenn safnast saman í leit að vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×