Innlent

Fjallað um Ísland í rússnesku morgunsjónvarpi

MYND/Valgarður

Fjallað verður um Geysi, álfa og íslenska náttúru í rússnesku morgunsjónvarpi á næstu vikum. Annar aðalstjórnenda þáttarins hefur verið hér á landi ásamt tökuliði að kynna sér land og þjóð og ber hvoru tveggja vel söguna.

Sjónvarpsmenn frá morgunþættinum Góðan daginn, Rússland sem sýndur er á rússnesku stöðinni Rossiya hafa verið hér síðustu vikuna og gert víðreist um Suður- og Vesturland. Þeir fóru meðal annars á Snæfellsjökul og ræddu við íbúa á Vesturlandi um álfatrú ásamt því að kynna sér borgarlífið í Reykjavík. Hópurinn segist hafa verið mjög heppinn með veður enda hafi sólin skinið alla daga. En ferðin að Gullfossi og Geysi er þeim minnisstæðust.

Anastacia Chernobrovina, annar stjórnenda rússneska morgunþáttarins, segir að þar hafi þau náð einstökum myndum af gosi úr hver á Geysissvæðinu. Hann hafi gosið þrisvar á mjög skömmum tíma og það hafi verið stórfengleg sjón. Þýskir sjónvarpsmenn hafi verið á svæðinu á svipuðum tíma en þeir hafi ekki náð nærri því jafngóðum myndum. Þetta hafi verið mikil upplifun.

Morgunþátturinn er í beinni í Rússlandi frá fimm til níu á morgnana en þar sem útsendingarnar ná til fjölmargra tímabelta stendur hann í raun yfir í tólf tíma og því hefur þátturinn verið tilnefndur í Heimsmetabók Guinness sem lengsti morgunþátturinn í sjónvarpi. Íslandsheimsóknin var einnig liður í því að kanna hvernig fólk víða um heim fer á fætur og því liggur beint við að spyrja hvernig Íslendingar koma gestunum fyrir sjónir.

Anastacia segir að þau hafi haldið að Íslendingar væru sem norræn þjóð mjög hlédrægir. Hins vegar hafi þau komist að því að Íslendingar séu mjög vingjarnlegir, opinskáir og afslappaðir og ljóst sé að þeir kunni að meta náttúruna. Dvölin hér hafi því verið góð og þau telji sig hafa verið mjög heppin með efnið sem þau náðu úr ferðinni.

Sex innslög um Ísland verða unnin fyrir morgunþáttinn og verða þau sýnd yfir vikutíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×