Innlent

Má sletta skyri eða klifra upp í byggingakrana?

Má sletta skyri eða klifra upp í byggingakrana? Hve langt mega yfirvöld ganga til að hefta mótmælendur? Þetta er meðal þeirra spurninga sem ræddar verða á málþingi um mótmæli og lýðræði sem ReykjavíkurAkademían stendur að í dag.

Í tilkynningu frá ReykjavíkurAkademíunni segir að kvisast hafi út að í undirbúningi séu alþjóðlegar mótmælaaðgerðir við Kárahnjúka. Mörgum sé eflaust í fersku minni aðgerðir síðasta árs þegar skyri var slett og í kekki kastaðist milli mótmælenda og lögreglu við Kárahnjúka.

 

Í tilefni af því megi spyrja hvar mörkin milli eðlilegra og óeðlilegra mótmæla liggja og hvenær mótmælendur gangi of langt. Einnig hve langt yfirvöld megi ganga til að hefta mótmælendur. Hvenær helgar tilgangurinn meðalið? Mega mótmælendur sletta skyri og príla upp krana og mega yfirvöld elta mótmælendur á röndum eða loka þá inni í skóla í Reykjanesbæ? 

Sumar þessara spurninga verða ræddar á stuttu málþingi um mótmæli og lýðræði sem ReykjavíkurAkademían stendur að í dag og hefst klukkan 16.30. Frummælendur verða Viðar Þorsteinsson heimspekingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur.

 

Að loknum erindum verða pallborðsumræður með frummælendum og Gesti Guðmundssyni, prófessor í félagsfræði við Kennaraháskóla Íslands, og Írisi Ellenberger, sagnfræðingi og umhverfisverndarsinna.

 

Málþingið er haldið í aðalsal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð og er öllum opið. Fundarstjóri er Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Viðskiptaháskólann á Bifröst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×