Innlent

Tvöfalt fleiri erlendir ríkisborgarar á kjörskrá

Um tvöfalt fleiri erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum í vor en í kosningunum fyrir fjórum árum. Þá hafa nærri 2500 manns þegar neytt atkvæðisréttar síns í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Laugardalshöll frá mánaðamótum.

Fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, kosningar.is, að nærri 4500 erlendir ríkisborgarar hafi rétt til að kjósa í kosningunum eftir tíu daga. Eru það töluvert fleiri en fyrir fjórum árum þegar um 2150 erlendir ríkisborgarar höfðu kosningarétt. Fjöldi þeirra hefur því ríflega tvöfaldast á fjórum árum og eru þá ótaldir það fólk af erlendu bergi brotið sem hefur fengið íslenskan ríkisborgararétt á síðustu árum.

Um eitt þúsund erlendir ríkisborgarar sem hafa kosningarétt nú koma frá einhverju hinna norrænu ríkjanna en til þess að öðlast kosningarétt þurfa þeir að hafa búið hér samfellt í þrjúr ár fram á kjördag. Aðrir erlendir ríkisborgarar þurfa hins vegar að hafa búið hér í fimm ár samfellt. Í þeirra hópi eru Pólverjar langfjölmennastir á kjörskrá eða 822. Fillippseyingar eru næstfjölmennastir eða um 280, Þjóðverjar um 250 og Bandaríkjamenn 234.

Þessir kjósendur geta líkt og aðrir greitt atkvæði utankjörfundar, til að mynda í Laugardalshöll þar sem nærri 2500 höfðu neytt atkvæðisréttar síns. Þar er hverjum sem er heimilt að kjósa utan kjörfundar, líka fólki sem ekki býr í Reykjavík.

Reykvíkingum er hins vegar bent á að opnað hefur verið fyrir rafrænan aðgang að kjörskrá vegna borgarstjórnarkosninga og geta borgarbúar nú kannað hvar þeir eigi að kjósa og í hvaða kjördeild á heimasíður Reykjavíkurborgar, reykjavík.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×