Erlent

Gosið í Merapi færist í aukana

MYND/AP

Eldfjallið Merapi á indónesísku eyjunni Jövu spúir nú ösku, hrauni og eldgasi um 4 km leið niður vestari hluta fjallsins. Eldgosið í fjallinu hefur enn færst í aukana.

Fjallið spúði ösku og grjóthnullungum yfir nálægt svæði í nótt og í morgun. Miklar sprengingar mátti heyra. Miklu hættuástandi var lýst yfir á svæðinu um helgina en gosið hefur stigmagnast dag frá degi alla liðna viku. Búið er að flytja mörg þúsund manns af hættusvæðum en fjölmargir hafast þar enn við þrátt fyrir viðvaranir, aðrir hafa snúið aftur frá fóttamannabúðum. Óttast er að ferja þurfi á brott fólk af svæðum sem hingað til hafa ekki verið í hættu og bíða íbúar þar milli vonar og ótta.

Fjallið er eitt 129 virkra eldfjalla á Indónesíu. Það spúði miklu gasskýi sem brenndi sextíu manns til bana þegar gaus árið 1994. Óttast er að samskonar gasský myndist nú.

Í gær brenndu íbúar á svæðinu reykelsi og fleyttu ávöxtum og grænmenti eftir vatni sem rennur niður hliðar fjallsins í þeim tilgangi að friða guðina og koma í veg fyrir að gosið færist í aukana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×