Erlent

Margvíslegur niðurskurður

Lokun herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli er liður í umfangsmikilli endurskoðun bandarískra stjórnvalda á herstöðvaneti sínu í heiminum. Allur gangur er á hvernig þau hafa staðið að niðurskurði í rekstri stöðva sinna erlendis.


Það er af sem áður var þegar bandaríski flugherinn starfrækti herstöðvar í tugatali um allan heim sem hundruð þúsunda hermanna og borgara unnu við. Undanfarin ár hefur gagnger endurskoðun farið fram á þessu þéttriðna neti og þær stöðvar sem á tímum kalda stríðsins gegndu mikilvægu hlutverki hafa týnt tölunni.

Ein þessara stöðva var Rhein Mein herflugvöllurinn í Frankfurt í Þýskalandi en á sínum tíma var hann sá stærsti sem Bandaríkjamenn ráku í Evrópu. Í desember á síðasta ári var honum lokað og sú starfsemi sem var eftir flutt til Ramstein-vallarins sem er nærri Stuttgart. Ólíkt Keflavíkurstöðinni var tilkynnt um lokunina með mjög góðum fyrirvara, eða strax árið 1990. Dregið var úr starfseminni smátt og smátt, til dæmis með að ráða ekki í þau störf sem losnuðu, og því fengu íbúar á svæðinu, sem í fyrstu voru óttaslegnir um sinn hag, umtalsvert svigrúm til að laga sig að þessum nýja veruleika.

Á Azoreyjum, sem eru í miðju Atlantshafinu og tilheyra Portúgal, rekur bandaríski flugherinn, í samvinnu við portúgalska herinn, Ladsjes-flugvöllinn. Legu sinnar vegna gegndu eyjarnar, líkt og Ísland, þýðingarmiklu hlutverki í kalda stríðinu en snemma á tíunda áratugnum var mjög dregið úr starfseminni í herstöðinni. Hundruðum borgarlegra starfsmanna var sagt upp og ollu þessar ráðstafanir vitaskuld algeru uppnámi á eyjunum, því eins og hér á landi hafa eyjaskeggjar verið Bandaríkjamönnum háðir um störf. Til að draga úr ólgunni fengu þeir sem misstu vinnuna skaðabætur en að auki fékk portúgalska ríkisstjórnin að kaupa F-16 þoturnar sem staðsettar voru í Ladsjes-stöðinni á góðum kjörum.


Varla er hægt að minnast á umsvif Bandaríkjamanna erlendis án þess að minnast á Thúle-stöðina á vestanverðu Grænlandi. Saga hennar hefur verið þyrnum stráð, til dæmis vegna nauðungarflutninga á inúítum sem bjuggu á svæðinu snemma á sjötta áratugnum og vegna mikillar mengunar af völdum eiturefna og þungmálma sem gerir umhverfið nánast óbyggilegt. Í dag þykir stöðin gegna mikilvægu hlutverki í eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna en þeir sömdu við Dani haustið 2004 um uppfærslu ratsjárkerfa í Thúle, við lítinn fögnuð Grænlendinga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×