
Erlent
Sektuð fyrir að farða sig undir stýri
Það getur verið betra að gefa sér tíma til að hafa sig til áður en maður fer út á morgnana. Þetta fékk bresk kona heldur betur að reyna á dögunum, þegar lögreglumenn sektuðu hana um röskar tuttugu þúsund krónur fyrir að farða sig á meðan hún var að keyra. Konan sást á hraðamyndavél lögreglu með snyrtivörur í báðum höndum og þar af leiðandi hvoruga á stýri. Sérfræðingar í öryggismálum vilja nú að myndavélum sem þessum verði komið upp á þjóðvegum Bretlands, til að grípa fólk glóðvolgt sem ekki notar öryggisbelti eða handfrjálsan búnað. Ólíklegt verður að teljast að það fáist samþykkt, enda yrði þá gengið ansi nærri persónufrelsi fólks.