Erlent

Niðurstaðna að vænta í vikunni

Íranar hafa aukið framleiðslu á eldflaugum sem geta borið kjarnaodda. Íransstjórn lofar að leggja meiri áherslu á auðgun úrans en áður, ákveði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að beita refsiaðgerðum gegn Íran.

Fundur stjórnar Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar hófst í Vín í morgun. Nýverið hefur verið haft eftir stjórnarerindrekum að í viðræðum undanfarna daga hafi verið nefndur sá möguleiki að Írönum verði leyft að auðga úran í takmörkuðu magni, þrátt fyrir möguleikana á að slíkt verði misnotað til smíði kjarnavopna. Þetta markar tímamót í málinu því að Evrópu- og Bandaríkjamenn hafa undanfarin ár harðneitað því að Íranar fái nokkra heimild til auðgunar. Aðalsamningamaður Íransstjórnar sagði í gær að Íranar myndu ekki láta vestræn stórveldi vaða yfir sig og ef eitthvað væri myndu þeir leggja enn meira púður en áður í auðgun úrans ef ákveðið yrði að vísa málinu fyrir öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna.

Hann segir kjarnorkuþróun vera Írönum nauðsynleg, auk þess að það sé sjálfsagður réttur þeirra og vilji þjóðarinnar að þróa kjarnorku. Rússar og Kínverjar fóru fram á það í byrjun febrúar að Írönum yrði gefinn frestur til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Nú er sá frestur liðinn, án þess að neitt hafi þokast í samningsátt. Skilaboðin frá stjórnvöldum í Íran hafa verið skýr og það kom berlega í ljós á fundi þeirra með fulltrúum stórvelda Evrópu fyrir helgina, þar sem samningamaður þeirra sagði það ekkert annað en yfirgang og frekju að ætla að vísa málinu fyrir öryggisráðið.

Niðustaðna í málinu er að vænta á næstu dögum. Mohamaed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, lét hafa eftir sér fyrr í dag að hann gerði sér vonir um að hægt yrði að semja um lausn deilunnar fyrir lok vikunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×