Erlent

Börn krefjast að múhameðsteiknarar verði hengdir

Fimmþúsund börn allt niður í átta ára gengu fylktu liði um götur stærstu borgar Pakistan í morgun og kröfðust þess að teiknararnir sem teiknuðu skopmyndirnar af Múhammeð spámanni yrði hengdur. Hingað til hefur fullorðna fólkið að mestu séð um mótmælin vegna skopmyndanna í Mið-Austurlöndum, en það breyttist heldur betur í dag.

Börnin sem gengu fylktu liði um götur Karachi í morgun eru á aldrinum átta til tólf ára og fengu frí úr skólum til að mótmæla skopmyndunum af Múhammeð spámanni. Þarna mátti sjá líkkistur vafðar bandaríska og ísraelska fánanum, mótmælaskilti, og eins og stundum áður mátti danski fáninn þola að verða eldinum að bráð.

Jamaat e-Islami, stærstu trúarsamtök múslima í Pakistan stóðu að mótmælagöngunni, eins og mörgum fyrri mótmælagöngum í Pakistan og Afghanistan eftir að upp úr sauð vegna skopmyndanna.

Reiði barnanna var síst minni en í fyrri mótmælagöngum og mörgum þeirra var verulega heitt í hamsi. Úr hópnum heyrðust köll eins og " Guð er máttugastur", "Við elskum Islam" og "hengjum þá sem móðguðu spámanninn"

Engum varð þó meint af og fjölmennt lið óeirðalögreglu sem fylgdist með þurfti þó ekki að grípa til aðgerða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×