Erlent

Málaferli vegna Da Vinci lykilsins hefjast í Lundúnum

Tveir breskir rithöfundar saka höfund bókarinnar Da Vinci lykillinn um að hafa stolið hugmyndinni að bókinni. Kvikmynd sem byggð er á bókinni gæti seinkað vegna málaferla.

Réttarhöldin yfir Dan Brown, höfundi Da Vinci lykilsins, hefjast í London í dag. Sækjendur eru tveir af þremur höfundum bókarinnar Holy Blood and Holy Grail, sem kom út fyrir 24 árum. Þar er meðal annars fjallað um hjónaband Jesú Krists og Maríu Magdalenu, að þau hafi átt barn og að ættingjar þeirra gangi enn um jörðina. Kaþólska kirkjan hafi svo náð að koma í veg fyrir að hið sanna kæmist í sögubækur.

Allt er þetta í takt við söguþráðinn í Da Vinci lyklinum og segja höfundar Holy Blood and Holy Grail að Dan Brown hafi eignað sér heiðurinn að bók sem að mestu byggist á áralöngum rannsóknum þeirra. Da Vinci lykillinn hefur selst í meira en þrjátíu milljónum eintaka og því má búast við að farið verði fram á háar skaðabætur.

Ef ekki næst samkomulag milli Browns og sækjendanna er búist við að minnst tvær vikur taki að útkljá málið. Sérfræðingar segja að málið komi til með að hafa áhrif á málaferli um höfundarrétt í framtíðinni. Verjendur muni ekki reyna að neita því að bók Browns byggist á hugmynd sem hafi þegar komið fram en hins vegar sé ekkert í lögum sem banni að gerð sé skáldsaga sem byggist á vísindalegum rannsóknum annarra en höfundarins. Um það séu einfaldlega engar reglur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×