Erlent

Ekkert lát á voðaverkum í Írak

Bið fátækra Íraka eftir matarstyrk breyttist í martröð í morgun, þegar maður hlaðinn sprengiefni gekk að röðinni og sprengdi sig í loft upp. En í skugganum af hrinu ódæðisverka virðist ný ríkisstjórn loks í sjónmáli í Írak.

Írakar virðast komnir skrefi nær myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir að bandalag Sjía ákvað í gær að tilnefna Ibrahim Al-Jafaari sem forsætisráðherra landsins. Hann hefur gegnt embættinu síðan í apríl og flest bendir til að svo verði áfram, enda kemur nærri helmingur þingmanna í Írak úr röðum bandalags Sjía. Aðeins eitt atkvæði skildi að þá Jafaari og varaforsetann Adel Mahdi, enda hefur stór armur innan bandalags Sjía verið óánægður með Jafaari síðan hann tók við völdum. Þingið sjálft á enn eftir að samþykkja Jafaari í embætti, en fastlega er búist við að stærstu flokkar Súnnía og Kúrda gefi samþykki sitt, gegn því að fá önnur ráðherraembætti í staðinn.

En þrátt fyrir að sátt virðist í sjónmáli á pólitíska sviðinu ætlar voðaverkum í landinu ekkert að linna. Í morgun breyttist bið fátæklinga eftir útlutun matarstyrks í martröð, þegar maður hlaðinn sprengiefni gekk að biðröðinni og sprengdi sig í loft upp. Sjö féllu og nærri fimmtíu særðust. Að sögn vitna hafði fólkið safnast saman til að sækja um vikulegan matarstyrk, þegar ógæfan dundi yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×