Erlent

Fuglaflensan þokast vestur

Eftir að fuglaflensunnar varð vart í Tyrklandi var einungis tímaspursmál hvenær hún teygði anga sína yfir Sæviðarsundið. Í morgun tilkynntu starfsmenn Evrópusambandsins að banamein svana sem fundust í Búlgaríu í vikunni hefði verið fuglaflensa af H5N1-stofni og skömmu síðar greindu ráðamenn í Grikklandi og á Ítalíu að veiran hefði einnig greinst í svanahræjum í þeirra löndum.

Fuglaflensa hefur raunar áður greinst í Evrópu, til dæmis í Rúmeníu og á Kýpur en þetta er í fyrsta sinn sem hún finnst í fuglum á Ítalíu og í Grikklandi. Þrátt fyrir það láta íbúarnir fréttirnar ekki raska ró sinni.

Stærstur hluti íslenska svanastofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum en ítölsku og grísku álftirnar eru hins vegar að mestu leyti staðfuglar og þeir sem á annað borð fljúga norður á bóginn fara til Rússlands og norðanverðrar Skandinavíu. Því telja náttúrufræðingar og dýralæknar ólíklegt að smit úr þeim geti borist hingað - að minnsta kosti í bili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×