Erlent

Ariel Sharon úr lífshættu

Tvísýnt var um líf Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, í dag eftir að rannsóknir sýndu alvarlegar skemmdir á meltingarfærum hans. Hann er nú hins vegar talinn vera úr bráðustu lífshættunni.

Ariel Sharon hefur verið meðvitundarlaus síðan hann fékk heilablóðfall í janúarbyrjun. Líðan hans hefur verið nokkuð stöðug þangað til í nótt þegar henni tók að hraka skyndilega. Rannsóknir lækna leiddu í ljós alvarlegar skemmdir í meltingarvegi forsætisráðherrans og var hann því samstundis settur á skurðarborðið. Búist er við að aðgerðin taki allt að sex klukkustundum en læknarnir gera sér hins vegar engar grillur um batahorfur Sharons. Raunar sagði einn þeirra í samtali við Reuters-fréttastofuna að flest benti til að hann yrði allur áður en dagur væri að kveldi kominn.

Ehud Olmert, einn nánasti samstarfsmaður Sharons er sitjandi forsætisráðherra, en búist er við að undir hans forystu muni hinn nýstofnaði flokkur Kadima vinna stórsigur í kosningunum sem haldnar verða í lok næsta mánaðar. Hver sem örlög Sharons verða í dag þá er öruggt að hann verður fjarri góðu gamni þegar kjördagurinn rennur upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×