Erlent

Einn lét lífið í snjóflóði norður af Tókýó

Einn lét lífið og tíu slösuðust þegar snjóflóð féll á hverasvæði norður af Tókýó í morgun með þeim afleiðingum að baðgestir og starfsmenn grófust í fönn.

Tvítugur maður var grafinn úr snjónum eftir að hann hafði legið undir fannferginu í sex klukkustundir. Hann lést skömmu síðar á sjúkrahúsi. Annað snjóflóð féll nokkru áður í um tveggja kílómetra fjarlægð frá hverasvæðinu. Engan sakaði þar.

Enn annað snjófóð féll á lestarteina á svæðinu í morgun og þurfti lestarstjóri að stöðva hraðlest sína í skyndi til að forða því að hún færi með flóðinu. 300 farþegar voru um borð og engan sakaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×