Erlent

Segir réttarhöldin sirkus

Þessi réttarhöld eru sirkus, sagði Zacarias Moussaoui við val á kviðdómi í réttarhöldum yfir honum í Virginíu í dag. Hann er eini maðurinn sem hefur verið ákærður í Bandaríkjunum vegna hryðjuverkanna ellefta september.

Val á kviðdómi í máli Moussaouis hófst í dag. Hann var rétt nýkominn í réttarsalinn þegar hann lenti í deilum við dómarann og sagðist krefjast þess að fá að færa rök fyrir máli sínu strax. Þá sagði hann um lögfræðinga sína að þeir væru ekki fulltrúar sínir og að hann vildi ekkert með þá hafa. Moussaoui sýndi engan mótþróa þegar hann var færður burt úr réttarsalnum af öryggisvörðum.

En skömmu áður en hann kom að dyrunum öskraði hann: ,,ég er al-Kæda og þessi réttarhöld eru sirkus."

Búist er við að minnst mánuð taki að velja kviðdóm í málinu. Réttarhöldin sjálf byrja svo sjötta mars, og þau snúast fyrst og fremst um hvort Moussaoui verði dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi. Hann er ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásirnar, enda vissi hann af þeim þegar hann var í fangelsi í Minnesota dagana fyrir ellefta september. Spurningin sem kviðdómurinn verður að svara er hvort þessar sakir réttlæti dauðarefsingu.

Sjálfur hefur Moussaoui viðurkennt að hafa einungis komið til Bandaríkjanna til að taka þátt í árásum á tvíburaturnana. Samt neitar hann að vita neitt meira um árásirnar en það sem þegar hefur komið fram og segist ekki hafa tekið þátt í að skipuleggja þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×