Erlent

Danir hvattir til að forðast 14 lönd

MYND/AP

Dönsk stjórnvöld hvetja Dani eindregið til að ferðast ekki til fjórtán landa í heiminum, þar sem múslimar hafa hótað að drepa danska ríkisborgara.

Löndin sem um ræðir eru Afghanistan, Alsír, Bahrain, Egyptaland, Íran, Jórdanía, Líbía, Marokkó, Óman, Pakistan, Katar, Súdan, Túnis og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Í tilkynningu frá danska utanríkisráðuneytinu segir að fresta eigi ferðum til þessara landa fram í lengstu lög. Þá er einnig varað við ferðum til Sýrlands og Jemen, þar sem öfgasinnaðir múslimar hafa hótað að drepa þegna þjóðanna þar sem spámaðurinn Múhammeð var móðgaður. Norðmenn eru líka hvattir til að láta ferðir til þessara tveggja landa eiga sig, enda nær reiðin líka til þeirra, eftir að myndirnar voru birtar í norskum fjölmiðlum.

Deilan hefur stigmagnast og ástandið víða um heim hefur verið rafmagnað undanfarna daga. Í morgun fleygðu tvö hundruð reiðir íranar bensínsprengjum og steinum í sendiráð Austurríkis í landinu. Byggingin er mikið skemmd á eftir og flestar rúður mölbrotnar. Eldurinn náði þó ekki að læsa sig í innanstokksmuni og ekki er vitað til þess að starfsmenn sendiráðsins hafi orðið fyrir meiðslum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×