Innlent

Biskup Íslands braut stjórnsýslulög

Biskup Íslands braut stjórnsýslulög við ráðningarferli sendiráðsprestsins í Lundúnum. Tengdasonur hans hreppti stöðuna.

Tveir prestar sóttu um embætti prests í Lundúnum í júlí 2003, þau Sigríður Guðmarsdóttir og Sigurður Arnarson. Biskup vék í málinu, þar sem annar umsækjenda er tengdasonur hans, en skipaði þriggja manna hæfisnefnd sem hann kvað á um að myndi skila bindandi niðurstöðu. Séra Sigurður Sigurðarson vígslubiskup tók við skipunarvaldi biskups og fór hann að tillögu nefndarinnar, svo sem biskup hafði fyrirskipað og skipaði Sigurð Arnarson, tengdason biskups, prest í Lundúnum.

Séra Sigríður undi ekki þessari málsmeðferð og skaut málinu til dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að Karl Sigurbjörnsson biskup hefði bæði verið óheimilt að framselja skipunarvald sitt til stjórnsýslunefndar, sem stofnað var til án sérstakrar lagaheimildar, og ennfremur að kveða á um að niðurstaða nefndarinnar væri bindandi. Dómurinn segir ekki unnt að útiloka að það hafi haft áhrif á endanlega ákvörðun staðgengils biskups. Dómurinn telur einsýnt að báðir umsækjendur hafi verið vel hæfir til starfans og því þykir honum ljóst að Þjóðkirkjan sé skaðabótaskyld gagnvart Sigríði vegna hugsanlegs tekjutaps.

Þar sem dómurinn telur ekki unnt að útiloka að Sigríður hefði hlotið embættið ef farið hefði verið að lögum, þá telst skipun Sigurðar vera brot á jafnréttislögum sem kveða á um að skylt sé að skipa konu ef karl og kona, jafnhæf, sækja um sömu stöðuna. Dómurinn viðurkennir því skaðabótaskyldu Þjóðkirkjunnar gagnvart Sigríði og sagðist hún að lokinni dómsuppsögu bæði hissa og glöð, en að næsta skref væri að huga að hversu há skaðabótakrafa yrði sett fram.

Gestur Jónsson, verjandi Þjóðkirkjunnar, sagði það gleðilegt við dóminn að ekki hefði verið fallist á kröfu sem byggði á því að misgert hefði verið við Sigríði. Skaðabótaskyldan hefði verið viðurkennd á þeirri forsendu að biskupi hafi sjálfum borið að taka ákvörðun um skipunina en ekki heimilt að samþykkja kröfu Tryggingastofnunar ríkisins um að fram færi bindandi val í hæfisnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×