Innlent

Of snemmt að segja hvort loðnustofninn sé hruninn

MYND/365

Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir of snemmt að kveða upp úr um það hvort loðnustofninn sé hruninn. Hann hefur engu að síður áhyggjur af því að engin loðna hafi fundist og segir að verulegt magn þurfi að finnast af henni til þess að hægt sé að mæla með veiðum.

Skip á vegum Hafrannsóknarstofnunarinnar fóru í loðnuleit í síðustu viku. Leitað var bæði á bæði djúp- og grunnsævi norður af landinu og í Grænlandssundi án þess að loðna fyndist. Þetta veldur mönnum áhyggjum og Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður og fiskifræðingur, sagði á NFS í gær að loðnustofninn væri hugsanlega hruninn.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir of snemmt að kveða upp stóradóm varðandi loðnustofninn. Hann segir stofnunina oft hafa lent í þeim aðstæðum að vera ekki búin að finna loðnuna til að veiða hana, hvað þá mæla hana. Það breyti hins vegar ekki því að stofnunin hafi verið með sérstaklega mikinn viðbúnað bæði fyrir jól og nú í janúar til þess að fá botn í málið, en án árangurs. Það gefi fullt tilefni til að hafa áhyggjur af stöðunni.

Jóhann nefnir tvær hugsanlegar ástæður fyrir því að loðnan finnst ekki. Annars vegar geti verið um það að ræða að stofninn sé orðinn svo lítill að hann mælist ekki og sé ekki kominn inn á landgrunnið norðanlands og það hafi ekki verið nægileg viðkoma til að standa undir veiðstofninum. Hins vegar geti verið að umhverfisskilyrði hafi svo mikil áhrif á gönguhegðun loðnustofnsins að göngurnar séu síðbúnar.

Skip á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar munu halda áfram leit fram í febrúar ef með þarf en ef ekkert finnst af loðnu er ljóst að stofnunin getur ekki mælt með veiðum úr stofninum. Jóhann segir út úr myndinni að mæla með veiðum fyrr en stofnunin hafi mælt verulegt magn af loðnu, en nýtingarstefnan hér á landi gangi út á að fara varlega í þessum efnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×