Innlent

Olís segir tölurnar rangar

Runólfur  Ólafsson Framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson Framkvæmdastjóri FÍB.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir tölur Olíuverslunar Íslands, Olís, um tæplega hundrað milljóna kostnaðarauka vegna olíugjaldsins ýta undir málstað þeirra. FÍB telur olíufélögin bæta sér upp herta samkeppni á díselmarkaði og lægri álagningu með hærri álagningu á bensínið.



Stóru olíufélögin hafa lýst því yfir að stóraukinn kostnaður hafi fylgt olíugjaldinu. Við mælum það hins vegar öfugt í okkar útreikningum, því álagningin á díselolíu lækkaði í kjölfarið. Það rennir stoðum undir okkar ábendingar sem byggja á þeim gögnum sem öll systurfélög okkar í nágrannalöndunum byggja á og eru sú viðmiðun sem heimsmarkaðurinn horfir á, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri samtakanna.

Samúel Guðmundsson, framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Olís, segir álagningartölurnar sem FÍB styðjist við ekki réttar. Við skiljum ekki hvaða tölur samtökin horfa á. Þær standast ekki samkvæmt okkar bókum.

Beðin um að birta réttu tölurnar svarar Samúel: Eðli málsins samkvæmt birtum við ekki framlegðartölur okkar, enda veit ég ekki um neitt fyrirtæki sem gerir slíkt. Ég vil hins vegar ítreka að álagning er frjáls og Olís býður viðskiptavinum upp á samkeppnishæft verð og góða þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×