Viðskipti innlent

Hjálmur ehf. eignast meirihluta í Birtíngi

 Nokkrar hræringar eiga sér stað á tímaritamarkaði um áramót þegar renna saman útgáfurnar Fögrudyr og Birtíngur. Stærsti eigandi fyrirtækisins verður Hjálmur ehf.
Nokkrar hræringar eiga sér stað á tímaritamarkaði um áramót þegar renna saman útgáfurnar Fögrudyr og Birtíngur. Stærsti eigandi fyrirtækisins verður Hjálmur ehf. MYND/Vilhelm

Verið er að leggja lokahönd á kaup Hjálms ehf. á meirihluta í útgáfufélaginu Birtíngi og verða þau að fullu frágengin um áramót.

Hjálmur, sem er í eigu Baugs, er aðaleigandi Fögrudyra sem nýverið keypti af 365 tímaritin Veggfóður og Hér og nú. Birtíngur gefur út fjölda tímarita, Mannlíf, Nýtt líf, Hús og híbýli, Séð og heyrt, Gestgjafann, Bleikt og blátt og Vikuna.

Eigendur sameinaðs félags eru Hjálmur ehf. með 60 prósent, en Hjálmur er að öllu leyti í eigu Baugs Group, LL eignir ehf., sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar hrl. á 28 prósent, Elín Guðrún Ragnarsdóttir á 10 prósent, og rest eiga Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson. Stjórnarformaður Birtings ehf. er Sigurður G. Guðjónsson, en með honum í stjórn eru Sverrir Arngrímsson og Egill Þorvarðarson. Framkvæmdastjóri er Elín Guðrún Ragnarsdóttir. Mikael Torfason og Reynir Traustason verða áfram aðalritstjórar útgáfunnar, hvor yfir sínu sviði.

Hjálmar Blöndal verður framkvæmdastjóri Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf. sem eftirleiðis gefur út DV. Á móti Hjálmi á 365 40 prósenta hlut í útgáfufélaginu. Aðrir eigendur eru Sigurjón M. Egilsson ritstjóri DV og Janus Sigurjónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×