Viðskipti innlent

Vöruskipti versna um 28 milljarða á milli ára

123 milljarða vöruskiptahalli á fyrstu ellefu mánuðum ársins Miklar verðhækkanir á útflutningsvörum hafa stuðlað að því að vöruskiptahallinn er ekki enn slakari en raun ber vitni.
123 milljarða vöruskiptahalli á fyrstu ellefu mánuðum ársins Miklar verðhækkanir á útflutningsvörum hafa stuðlað að því að vöruskiptahallinn er ekki enn slakari en raun ber vitni.

Vöruskiptahallinn versnaði til muna á fyrstu ellefu mánuðum ársins miðað við árið í fyrra. Verðhækkanir og gengislækkun skýra helst aukningu útflutnings á árinu 2006 á meðan stóriðjuframkvæmdir skýra aukningu innflutnings.

Vöruskipti voru neikvæð um 13,5 milljarða króna í nóvember samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær. Innflutningur nam 33 milljörðum króna en útflutningur tæpum 20 milljörðum. Hallinn tvöfaldaðist frá því í október sem skýrist fyrst og fremst af auknum innflutningi milli mánaða á meðan útflutningur stóð nánast í stað. Mest jókst innflutningur á eldsneyti en sá liður getur sveiflast mjög milli mánaða.

Litið til fyrstu ellefu mánaða ársins má sjá að vöruskiptahallinn hefur aukist töluvert milli ára. Hann nemur nú 123 milljörðum króna en var tæpir 94,7 milljarðar króna fyrir sama tímabil í fyrra. Samdráttur varð í öllum helstu vöruflokkum útflutnings í magni mælt nema í álútflutningi. Í Morgunkorni Glitnis segir að ef ekki kæmi til hækkun á heimsmarkaðsverði fyrir helstu útflutningsvörur Íslendinga væri staðan enn verri en raun ber vitni. Þær hækkanir og gengislækkun skýra helst að útflutningsverðmæti jókst um átján prósent á árinu. Aukningu innflutnings má helst rekja til stóriðjuframkvæmda.

Líklegt þykir að draga muni verulega úr halla á vöruskiptum á komandi misserum. Í Morgunkorninu er þessu til stuðnings bent á að álútflutningur vaxi hröðum skrefum og innflutningur á fjárfestingarvöru komi væntanlega til með að minnka verulega með lokum stóriðjuframkvæmda. Við það bætist svo að nú hægi á annarri fjárfestingu, jafnt atvinnuvega sem í íbúðarhúsnæði. Þar að auki sé gert ráð fyrir að einkaneysla standi í stað eða dragist lítillega saman á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×