Innlent

Sex þúsund fá vaxtabætur vegna endurskoðunar

MYND/E.Ól

Rúmlega sex þúsund skattgreiðendur sem ekki fengu vaxtabætur samkvæmt álagningu í ágúst síðastliðnum öðlast rétt til vaxtabóta samkvæmt lögum um breytingar á vaxtabótum sem samþykkt voru á Alþingi nýlega.

Lögin voru sett í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í sumar um að hún væri tilbúin að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við álagningu í ágúst að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum fólks.

Fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að heildartölur í skattframtölum sýni að nettóeign allra framteljenda hafi að meðaltali hækkað um tæpan fjórðung milli áranna 2004 og 2005.

Þessi endurákvörðun vaxtabóta nær til 15 þúsund skattgreiðenda en sem fyrr segir fengu sex þúsund þeirra engar vaxtabætur í ágúst. Samtals nemur hækkun úgreiddra vaxtabóta 577 milljónum króna.

Tilkynningar um breytingar á vaxtabótum hafa verið sendar til þeirra sem endurákvörðunin tók til samkvæmt forsendum laganna og verða vaxtabæturnar greiddar út í dag. Kærufrestur til skattstjóra vegna endurákvörðunarinnar er 30 dagar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×