Erlent

Serbar kenna stríðsglæpadómstólnum um dauða Mílósevits

Niðurstöður úr krufningu á líki Mílósevitsberast í kvöld eða fyrramálið, og og þar með verður dánarorsökin vætanlega ljós. Serbneskur réttarlæknir verður viðstaddur krufninguna að kröfu Serba, sem telja Stríðsglæpadómstólinn bera ábyrgð á dauða hans.

Líkið hefur verið flutt úr fangelsinu á réttarrannsóknarstofu í Hag, þar sem krufningin fer fram. Það er réttarlæknir frá Serbíu-Svartfjallalandi sem framkvæmir hana, en að kröfu serbneskra stjórnvalda verður annar réttarlæknir á þeirra vegum viðstaddur.

Það var fangavörður sem fann líkið milli níu og tíu um morguninn, og hefur Mílósevits þá að líkindum verið látinn í nokkrar klukkustundir. Mílósevits, eins og fleiri fangar, var talinn í sjálfsmorðshættu, og því átti að fylgjast með honum og öðrum á hálftíma fresti. Rannsókn fer nú fram innan dómstólsins á aðdraganda dauða hans, en lögmaður hans segir nú að Mílósevits hafi lýst grunsendum sínum um að verið væri að eitra fyrir sér.

Í morgun vísaði saksóknari í málinu þessu algerlega á bug - þetta væru eingöngu innistæðulausar sögusagnir. Hann tilkynnti jafnframt á blaðamannafundi að ekki væri búið að útiloka sjálfsmorð algjörlega, krufningin myndi skera úr um það.

Stríðsglæpadómstóllinn hafnaði í síðasta mánuði beiðni hans um að fá að fara til Rússlands í læknismeðferð. Dómarar töldu hægt að meðhöndla sjúkdóm hans í Hollandi og voru ekki sannfærðir um að hann myndi snúa aftur fyrir lok réttarhaldanna. Nú saka ættingjar og stuðningsmenn hans dómstólinn um að bera ábyrgð á dauða hans. Fulltrúi dómstólsins fullyrti í gær að Mílósevits hefði fengið fullkomnustu læknisþjónustu sem völ var á.

Dauði Mílósevits hefur vakið blendnar tilfinningar í Bosníu-Hersegóvínu. Bosníu-Serbar í borginni Pale, rétt utan við Sarajevo, söfnuðust saman í kirkjum og kveiktu á kertum fyrir Mílósevits. Á sama tíma á markaðstorginu í Sarajevo fögnuðu íbúar fregnunum af láti hans. Á þessu markaðstorgi voru óbreyttir borgarar stráfelldir í einu mesta blóðbaði í Sarajevo á tímum stríðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×