Lífið

Plata í nóvember

Yusuf Islam Islam, sem áður kallaði sig Cat Stevens, gefur út sína fyrstu poppplötu í 28 ára í nóvember.
Yusuf Islam Islam, sem áður kallaði sig Cat Stevens, gefur út sína fyrstu poppplötu í 28 ára í nóvember. MYND/AP

Enski tónlistarmaðurinn Yusuf Islam, sem áður hét Cat Stevens, ætlar að gefa út sína fyrstu poppplötu í 28 ár í nóvember undir merkjum Atlantic Records.

Platan nefnist An Other Cup og er upptökustjóri Rick Nowell sem hefur áður unnið m.a. með Madonnu og Dido. Á meðal þeirra sem aðstoða Islam á plötunni er söngvarinn Youssou N"Dour frá Senegal sem hefur m.a. unnið með Peter Gabriel.

Fyrsta smáskífulag plötunnar verður líklega Heaven/Where True Love Goes. Athygli vekur að á plötunni verður útgáfa Islam af lagi The Animals, Don"t Let Me Be Misunderstood.

Yusuf Islam fæddist í London árið 1947 og var skírður Steven Georgiou. Sem Cat Stevens gerði hann vinsæl lög á borð við Morning Has Broken, Wild World og Moon Shadow.

Árið 1977 fékk hann nóg af popplíferninu, gerðist múslimi og breytti nafni sínu. Tveimur árum síðar hætti hann alfarið í tónlistarbransanum. Árið 1981 sneri hann aftur og fór að gefa út trúarlega tónlist. Hefur hann gefið út tíu slíkar plötur undir merkjum plötufyrirtækis síns Mountain of Light.

Á síðasta ári gaf Islam út sitt fyrsta popplag síðan 1977. Var það lagið Indian Ocean og rann allur ágóðinn til fórnarlamba flóðanna miklu í Asíu árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.