Erlent

Áttræðar konur grunaðar um að myrða heimilislausa

Lögregla í Bandaríkjunum hefur handtekið tvær konur á áttræðisaldri sem eru grunaðar um að hafa myrt heimilislausa menn. Þær höfðu krafist þess að fá greiddar út milljónir bandaríkjadala vegna líftrygginga sem þær höfðu keypt fyrir þá.

Málið er allt hið óvenjulegasta. Helen Golay, sem er 75 ára, og vinkona hennr Olga Rutterschmidt, sem er þremur árum yngri, voru handteknar á fimmtudaginn vegna rannsóknar á tryggingasvikum. Lögregla telur að konurnar hafi vingast við tvo útigangsmenn og haldið þeim upp í tveimur íbúðum í Los Angeles. Þar hafi þeir verið í tæp tvö ár og konurnar útvegað þeim allt sem þeir þurftu. Í staðinn hafi þær fengið þá til að undirrita pappíra vegna líftrygginga á hátt í tuttugu mismunandi stöðum. Þar hafi konurnar verið tryggingaþegarnir.

Síðan létust mennirnir tveir þegar ekið var á þá en ökumaður lagði á flótta í báðum tilvikum. Þetta gerðist annars vegar í nóvember 1999 og hins vegar í júní í fyrra. Í báðum tilvikum gerðist þetta snemma morguns og engir vitni á ferð. Mennirnir tveir létust eftir að tvö ár voru liðin frá því að líftryggingarnar voru keyptar og því hægt að greiða þær út.

Lögreglu grunar að konurnar hafi keyrt sjálfar á mennina en útiloka ekki að þær hafi fengið aðra til þess. Talið er að vinkonurnar hafi verið að leita næsta fórnarlambs þegar þær voru teknar höndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×