Innlent

Fá ekki hærri laun

Fastráðnir erlendir hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum fá ekki hærri laun en íslenskir, segir hjúkrunarforstjóri spítalans. Hún getur þó ekki svarað því af eða á hvort hjúkrunarfræðingar sem koma frá norrænni starfsmannaleigu í sumar fái hærri eða lægri laun en þeir íslensku.

Nú starfa um fimmtíu erlendir hjúkrunarfræðingar við Landsspítalann. Útlit er fyrir að þeim fjölgi á næstunni, enda hefur Landsspítalinn auglýst eftir hjúkrunarfræðingum á öllum Norðurlöndunum vegna mannekklunnar hér.

Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri segir erlendu hjúkrunarfræðingana ganga inn í íslenska kjarasamninga og því á sömu launum og íslenskir hjúkrunarfræðingar. Þetta gildi um alla sem ráðnir séu til lengri tíma.

Öðru máli gegnir hins vegar um 20 hjúkrunarfræðinga sem Landspítalinn hefur samið við danska starfsmannaleigu um ráðningu á í níu vikur í sumar. Elsa Friðfinnsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að þessir hjúkrunarfræðingar fái hærri laun en þeir íslensku. Hjúkrunarforstjórinn vill ekki staðfesta að þetta sé rétt. Hún segist ekki geta gefið upp hvað það kosti að ráða þessa hjúkrunarfræðinga til starfa. Starfsmannaleigan fái eina upphæð og það sé svo hennar að semja við hjúkrunarfræðingana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×