Erlent

Árás á Ramallah

Ísraelskir hermenn réðust inn í Ramallah, helstu borg Palestínumanna á vesturbakkanum, í dag, felldu fjóra menn og særðu um fimmtíu. Árásin var gerð daginn eftir að Bush Bandaríkjaforseti fagnaði áætlun Ísraelsstjórnar um landnám á vesturbakkanum. Svona árás í dagsbirtu á helsta bæ Palestínumanna á vesturbakkanum er óvenjuleg. Tilgangurinn virðist hafa verið að ná einum af leiðtogum Heilags stríðs, samtaka sem berjast gegn Ísrael. Þeir tóku manninn, en ekki fyrr en eftir heiftarleg átök á Manaratorgi í miðbæ Ramallah. Á meðan hefur Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels ráðfært sig við ráðamenn í Washington um áætlun sem hann hefur um framtíðarfyrirkomulag mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann vill leggja niður landemabyggðir aðrar en þrjár sem eru nálægt Ísrael. Síðan hefur hann hug á að innlima land í kringum þær byggðir inn í Ísrael. Bush Bandaríkjaforseti fagnaði þessum fyrirætlunum. Palestínumenn eru algjörlega andsnúnir þessum hugmyndum, enda fela þær í sér að stór hluti af þeirra svæði verður innlimað í Ísrael. En eftir sigur Hamas í nýafstöðnum þingkosningum neitar Olmert að ræða við palestínsku stjórnina. Á Bush Bandaríkjaforseta mátti heyra í gærkvöldi að ekki myndi hann standa í vegi fyrir Ísraelum í þessu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×