Erlent

Ísöld í Úkraínu

Íbúar í borginni Alchevska í Austur-Úkraínu reyna ýmislegt til að halda á sér hita í þeim fimbulkulda sem þar geisar. Bilun varð hjá hitaveitu á svæðinu fyrir rúmum tveimur vikum og íbúar í borginni segja að þar sé nú ísöld.

Gríðarmikill snjór þekur götur borgarinnar og hefur allt niður í 38 gráðu frost mælst þar. Bilunin nú og afleiðingar hennar eru einsdæmi þrátt fyrir að hita- og rafmagnsveitukerfi landsins séu fornfáleg og gefi sig oft undan miklu álagi. Tekist hefur að koma hita aftur á sumstaðar í borginni en 270 heimili eru enn án hitunar og er það talið hafa áhrif á líf um 20 þúsund borgarbúa. Búið er að flytja 11 þúsund börn til annarra borga í Úkraínu og stjórnmálaflokkar keppast við að gefa íbúum í Alchevska peninga, gufukatla og farmiða til annarra svæða til að vinna sér inn stuðning fyrir þingkosningarnar í mars. 4.500 manna lið tæknimanna hefur unnið baki brotnu við að reyna að komast fyrir bilunina. Á meðan standa opinberir starfsmenn utan dyra og höggva eldivið úr gömlum húsgögnum sem fólk hefur gefið frá sér.

Heimilislausir hafast við í neyðarskýlum en þeir hafa orðið verst úti í vetrarhörkunum. Maria Sutkovskaya er 68 ára. Hún hefur klæðst fjölmörgum ullarpeysum og þykkum vetrarjakka síðan hitinn fór af borginni. Hún býr ein í íbúð sinni en þar fer hitinn ekki yfir þrjár gráður.

Viktor Yushchenko, forseti landsins, hefur heitið því að búið verði að hleypa hita aftur á í borginni á morgun. Íbúar eru þó ekki bjartsýnir um að það takist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×