Erlent

Skráðu fingraför nemenda

Persónuvernd í Noregi hefur krafið framhaldsskóla í Osló skýringa á því að skólinn hafi sett upp fingrafaralesara þar sem nemendur þurftu að skrá sig inn og út úr skólanum til þess að fylgjast með hversu miklum tíma nemendur eyddu í skólanum.

Kerfið var sett upp haustið 2004 og skráðu nemendur sig inn og út möglunarlaust og hreyfðu engum andmælum við eftirlitinu. Einn nemandi sendi þó inn fyrirspurn til norsku Persónuverndarinnar til þess að spyrjast fyrir um hvort eðlilegt gæti talist að skrá fingraför nemanda í þessum tilgangi.

Skólayfirvöld segja það hafa aukið ábyrgðartilfinningu nemenda að fylgst væri með viðveru þeirra í skólanum með þessum hætti. Þau tóku þó kerfið úr notkun án mótmæla í aprílbyrjun þegar Persónuvernd fór að grennslast fyrir um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×