Erlent

Stjórnarsáttmáli í höfn

Olmert og Peretz voru sáttir þegar stjórnarmynduninni var lokið.
Olmert og Peretz voru sáttir þegar stjórnarmynduninni var lokið. MYND/AP

Ný ríkisstjórn í Ísrael er handan við hornið eftir að Kadima-flokkurinn og Verkamannaflokkurinn náðu samkomulagi um stjórnarsamstarf. Flokkarnir hafa ekki hreinan meirihluta og þurfa því að reiða sig á stuðning nokkurra smáflokka.

Kadima-flokkurinn sem Ariel Sharon, þáverandi forsætisráðherra, stofnaði síðastliðið haust var sigurvegari ísraelsku þingkosninganna sem haldnar voru í lok síðasta mánaðar en Verkamannaflokkurinn fékk þá næst flest þingsæti. Nú hafa þessir flokkar náð samningum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Allt bendir til að Ehud Olmert, leiðtogi Kadima og starfandi forsætisráðherra, haldi embætti sínu en Amir Peretz, leiðtogi Verkamannaflokksins, verður varnarmálaráðherra. Flokkarnir tveir hafa þó aðeins rúmlega þriðjung þingsæta og því verða þeir að reiða sig á stuðning nokkurra smáflokka eigi þeir að halda velli. Flokkur eldri borgara hefur þegar gengið til liðs við þá og fastlega er búist við að Shas og Lögmálsflokkurinn, sem strangtrúaðir gyðingar stýra, og hinn vinstrisinnaði Meretz-flokkur muni einnig setjast í stjórnina. Með svo tryggan meirihluta ætti stjórninni að takast að koma ýmsum af sínum umdeildari málum í gegnum þingið, svo sem lokun smærri landnemabyggða á Vesturbakkanum. Olmert lýsti því einmitt yfir í gær einhliða brottflutningi þaðan yrði haldið áfram svo varðveita mætti einingu Ísraels sem ríkis gyðinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×