Viðskipti innlent

SPRON skilar 2,6 milljörðum í hús

Guðmundur Hauksson, sparissjóðs-stjóri SPRON
Guðmundur Hauksson, sparissjóðs-stjóri SPRON

Methagnaður varð af rekstri SPRON á fyrri hluta ársins eða 2.627 milljónir króna. Til samanburðar var afkoma sparisjóðsins tæpir 1,6 milljarðar á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 37 prósent á ársgrundvelli.

Hreinar rekstrartekjur SPRON voru um 5,1 milljarður króna og hækkuðu um helming á milli ára. Stærstur hluti tekna var annars vegar hreinar vaxtatekjur, sem voru um 1.657 milljónir og jukust um helming, og hins vegar gengishagnaður af hlutabréfum, sem var 1,8 milljarðar og jókst um 90 prósent. Hreinar þjónustutekjur námu tæpum hálfum milljarði og arðstekjur voru 464 milljónir og hækkuðu umtalsvert.

Rekstargjöld námu rúmum tveimur milljörðum króna og hækkuðu um 37 prósent á milli ára. Heildareignir SPRON þann 30. júní voru komnar yfir 153 milljarða króna og höfðu hækkað um rúman þriðjung frá áramótum. Eigið fé var um 19,2 milljarðar, um 47 prósenta hækkun, sem meðal annars er tilkomin vegna aukningar stofnfjár.

Aö sögn Guðmundar Haukssonar, sparissjóðsstjóra SPRON, eru horfur góðar seinni hluta ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×