Viðskipti innlent

Sumum er evran eðlilegt skref

Bjarni Már Gylfason
Bjarni Már Gylfason

"Evran er kannski eðlilegt skref þessara stóru fyrirtækja sem eru að gera sig gildandi á alþjóðamarkaði og þurfa á því að halda að vera eftirsótt í augum fjárfesta alls staðar," segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Hann segir að hvort sem fólki líki betur eða verr séu fyrirtæki landsins smám saman að verða evrópskari og um leið hafi það áhrif á markaðinn hér.

Meðal fyrirtækja sem hér eru skráð í kauphöll og hafa tekjur að mestu erlendis frá ágerist þessa dagana umræða um þann möguleika að skrá hlutabréf sín í erlendri mynt. "Þessi þróun byrjaði fyrir nokkrum árum þegar skattalögum var breytt á þann hátt að fyrirtæki máttu gera upp í hvaða gjaldmiðli sem er," segir hann og bætir við að ljóst sé að á meðan hlutabréf séu skráð í krónum séu þau ekki jafnálitlegur fjárfestingarkostur. "Þeir sem kaupa hlutabréf í krónum taka á sig mjög mikla gengis-áhættu og það hlýtur að fæla frá góða fjárfesta."

Þá segir Bjarni áhugaverðar hugmyndir sem hreyft hefur verið við á vettvangi Alþýðusambands Íslands um að greiða laun að hluta í evrum. "Svo má ekki gleyma að laun sjómanna, þótt þau séu ekki beintengd við evru, eru tengd við tekjur útgerðarinnar," segir hann og bendir á að fyrir þá væri mjög hagstætt að taka húsnæðislán í evrum.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evru sem gjaldmiðils í stað krónu er eitt af helstu stefnumálum Samtaka iðnaðarins. Bjarni segist ekki viss um að Evrópusambandið og evrumál verði hitamál í næstu Alþingiskosningum. "Ég óttast að menn forðist að ræða þetta, þrátt fyrir að brýn þörf sé á því. En sterkur þrýstingur frá fyrirtækjum og atvinnulífi gæti breytt því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×