Innlent

Góður svefn styrkir minnið

Halla Helgadóttir, hið virta fræðitímarit Nature birtir í dag grein hennar um svefnrannsóknir.
Halla Helgadóttir, hið virta fræðitímarit Nature birtir í dag grein hennar um svefnrannsóknir.

Hægar heilabylgjur djúpsvefns styrkja minnið. Þetta kemur fram í grein sem birtist í hinu virta fræðiriti Nature í gær, en rannsóknin er mastersverkefni Höllu Helgadóttur, diplom sálfræðings, sem hún vann ásamt samstarfsmönnum sínum við háskólann í Lübeck í Þýskalandi undir leiðsögn sálfræðingsins Jan Born, sem stjórnar taugainnkirtlafræðistofnun skólans.

„Rannsóknin gekk út á það að auka hægar heilabylgjur í svefni með vægri raförvun á höfuð. Þannig má dýpka svefninn, en það hefur ekki verið gert áður með þessum hætti,“ segir Halla.

Hún segir að niðurstöður minnisprófa, sem lögð voru fyrir þátttakendur rannsóknarinnar, sýndu að minni þeirra styrktist meira yfir nótt þegar þeir fengu raförvun heldur en við venjulegan svefn. „Þetta bendir til þess að hægar heilabylgjur í djúpsvefni gegni því hlutverki að festa í minnið upplýsingar sem við höfum lært yfir daginn. Rannsóknin útskýrir með nýjum hætti mikilvægi góðs nætursvefns til að viðhalda minni og muna lengur það sem við upplifum.“

Halla er alkomin heim og vinnur nú að svefnrannsóknum á Landspítalanum auk heilalínuritsrannsókna á Alzheimer-sjúkdómnum, ofvirkni og athyglisbresti hjá fyrirtækinu Mentis Cura.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×