Innlent

Mikil aukning alnæmis vegna kynbundins ofbeldis

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur áhyggjur af aukningu á alnæmissmiti kvenna og stúlkna um allan heim. Ástæðurnar felast einkum í slæmum félagslegum aðstæðum kvenna sem eru fórnarlömb nauðgana, misnotkunar, mansals og vændis. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu þessa efnis vegna alþjóðlega alnæmisdagsins 1.des.

Rauði kross Íslands styrkir alnæmisverkefni í Malaví, Suður Afríku og Mósambík, en alnæmistíðni er hæst í heimi í löndunum í sunnanverðri Afríku þar sem allt að 40% íbúa eru alnæmissmitaðir. Skjólstæðingar Rauða krossins í þessum löndum eru flestir konur. "Alnæmissmit vegna kynbundins og kynferðislegs ofbeldis má líkja við neyðarástand á þessum slóðum," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni vegna alnæmisverkefna í sunnanverðri Afríku þar sem sóst er eftir 21 milljarði íslenskra króna sem verja á til baráttunnar gegn alnæmi næstu árin. Áætlað er að Rauði krossinn nái til um 50 milljón manna með forvarnarverkefnum sínum gegn útbreiðslu alnæmis á þessum slóðum, muni annast 250.000 alnæmissmitaða einstaklinga og styðja 460.000 börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis - sérstaklega þau sem misst hafa foreldra sína úr sjúkdómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×