Innlent

Kvikmyndaframleiðendur keppa um íslenskar krimmasögur

Þýskir kvikmyndaframleiðendur keppast við að semja um kvikmyndaréttinn að íslenkum sakamálasögum. Bókaforlagið Veröld hefur selt kvikmyndaréttinn á Þriðja tákninu eftir Yrsu Sigurðardóttur til þýska kvikmyndaframleiðandans Ziegler Film. Í gær var líka tilkynnt að samningar hefðu tekist milli Réttindastofu Eddu útgáfu hf. og UFA Fernsehproduktion GmbH í Berlín um sölu á réttinum til gerðar sjónvarpsmyndar og sjónvarpsþátta byggðra á sögunni Morðið í hæstarétti eftir Stellu Blómkvist.

Regina Ziegler sem vill gera bíómyndir eftir sögum Yrsu, er einn virtasti kvikmyndaframleiðandi Þýskalands en sem dæmi má nefna að fyrr á þessu ári var efnt til sérstakrar sýningar á verkum hennar í Museum of Modern Art í New York. Meðal kvikmynda sem Ziegler Film hefur áður framleitt er Unkenrufe eftir skáldsögu þýska nóbelsskáldsins Günter Grass. Þriðja táknið er væntanlegt á 25 tungumálum í yfir eitt hundrað löndum í öllum byggðum heimsálfum veraldar. Önnur glæpasaga Yrsu, Sér grefur gröf, er nýkomin á markað en nú þegar hefur útgáfurétturinn á henni verið seldur til fjölda landa austan hafs og vestan.

Fyrirtækið sem vill gera kvikmyndir eftir sögum Stellu Blómkvist, UFA Fernsehproduktion, er hluti af fjölmiðlarisanum Bertelsman sem áður hafði keypt útgáfurétturinn á öllum bókum Stellu Blómkvist. Fyrirtækið fær einnig forkaupsrétt að öðrum útkomnum glæpasögum Stellu Blómkvist með það að markmiði að þróa sjónvarpsmyndir og sjónvarpsþáttaraðir

upp úr bókunum. Undirbúningur að framleiðslunni er þegar hafinn og gert er ráð fyrir hluti hennar fari fram hér á landi.

Þetta eru í fyrstu samningar erlendra kvikmyndaframleiðenda um rétt á íslenskum skáldsögum en nokkur slík hafa líka sýnt skáldsagnaröð Arnalds Indriðasonar áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×