Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá TM

Tryggingamiðstöðin (TM) skilaði tæplega 1,1 milljarði króna í hagnað á þriðja fjórðungi ársins samanborið við rúmlega 2,5 milljarða króna hagnað í fyrra. Hagnaður tryggingafélagsins nam 464 milljónum krónum á fyrstu níu mánuðum ársins sem er um 5 milljörðum krónum minna en á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu frá TM segir að rekstrartap af vátryggingastarfsemi fyrstu níu mánuði ársins hafi numið 175 milljónum króna. Það skýrist fyrst og fremst af tapi á rekstri frjálsra ökutækjatrygginga, slysa- og sjúkratrygginga. Afkoma af vátryggingarekstri fer batnandi og er hagnaður af vátryggingarekstri í ársfjórðungnum.

Rekstrarkostnaður TM nam 474 milljónum króna á þriðja fjórðungi ársins og hækkar um 22 prósent á milli ára. Rekstrarhagnaður nam hins vegar tæplega 1,9 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við rúmlega 2,3 milljarða krónur í fyrra.

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir kaup á Norska tryggingarfélaginu Nemi og fjárfestingafélaginu ISP hafa mikil áhrif á efnahagsreikning félagsins í 9 mánaða uppgjöri. Félögin hafi þó minni áhrif á rekstrarreikning félagsins þar sem þau koma inn í samstæðu frá lokum ágústmánaðar 2006.

Tilkynning frá TM






Fleiri fréttir

Sjá meira


×