Innlent

Gerður hættir sem sviðsstjóri menntasviðs

MYND/Teitur

Gerður G. Óskarsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs Reykjavíkurborgar, hefur beðið um lausn frá störfum. Beiðni hennar þar að lútandi var lögð fram á fundi borgaráðs í dag. Fram kemur í tilkynningu frá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, annars fulltrúa Samfylkingarinnar í borgarráði að Gerður sé fimmti sviðsstjórinn sem segi upp eftir að nýr meirihluti hafi tekið við borginni.

Þar segir einnig að Gerður muni áfram að ákveðnum sérverkefnum fyrir borgina en að hún segi sjálf að vegna skipulagsbreytinga sem taka gildi um áramót, þegar menntasvið verður skipt upp í menntasvið og leikskólasvið, óski hún eftir lausn frá störfum. Samfylkingin hafi gagnrýnt þessa skiptingu og kallað eftir faglegum rökum en ekki fengið nein svör. Sem fyrr segir er Gerður sú fimmti sviðsstjórinn sem segir upp störfum á síðustu fimm mánuðum en áður hafa Salvör Jónsdóttir, sviðsstjóri skipulagssviðs, Helga Jónsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og starfsmannasviðs, Lára Björnsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, og Ágúst Hrafnkelsson, sviðsstjóri innri endurskoðunar sagt upp störfum.

Samfylkingin bendir enn fremur á að borgarbókari hafi einnig lagt fram sína uppsögn í dag og bætist þá í hóp skipulagsfulltrúa og jafnréttisráðgjafa sem einnig eru nýlega hættir. Ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að fagmennska og festa í stjórnsýslu borgarinnar sé á undanhaldi þegar svo margir kjósa að segja upp á svo stuttum tíma.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×