Lífið

Afmælisfundur hjá Al-Anon

Al-Anon samtökin voru stofnuð á Íslandi 18. nóvember 1972 og fagna því 34 ára afmæli sínu í dag. Af því tilefni boða samtökin til afmælis- og kynningarfundar í Háteigskirkju klukkan 20.30 í kvöld. Þar munu tveir Al-Anon félagar, einn Al-Ateen félagi og einn AA-félagi deila reynslusögum sínum með fundargestum.

Al-Anon er félagsskapur ættingja og vina alkóhólista og er sprottinn upp úr AA-samtökunum. Félagar í Al-Anon telja að alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur og að breytt viðhorf geti stuðlað að bata og samtökin hafa aðeins einn tilgang, að hjálpa aðstandendum alkóhólista.

Félagar í AA-samtökunum og Al-Anon eiga það sameiginlegt að samhæfa reynslu sína, styrk og vonir til þess að hjálpa hver öðrum og því eru reglulegir fundir þungamiðja starfs hópanna þar sem fólk getur komið saman og deilt sögum sínum.

Nafnleyndar er gætt í Al-Anon og staðinn er vörður um nafnleynd allra félaga og ekkert félagatal er haldið.

Al-Anon er andlegur félagsskapur en ekki trúarlegur en allir eru velkomnir hvort sem þeir tilheyra einhverjum trúarhópi eða ekki. Engra félagsgjalda er krafist af félögum og kostnaði er mætt með frjálsum framlögum félaganna á fundum.

Frekari fróðleik um samtökin má nálgast á heimasíðu þeirra www.al-anon.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.