Erlent

Sprengt við markað í Bagdad

Skelfing greip um sig eftir sprenginguna.
Skelfing greip um sig eftir sprenginguna. MYND/AP

Í það minnsta fjórir létust og 30 slösuðust þegar bílsprengja sprakk í Bagdad í morgun. Sprengjan sprakk rétt eftir að forsætisráðherra Íraks sagði það eitt allra mikilvægasta verkefni nýrrar stjórnar að berjast gegn ofbeldi í höfuðborginni.

Sprengingin varð við erilsaman markað um tíu-leytið í morgun að staðartíma. Fjöldi fólks var á markaðnum auk þess sem hann er skammt frá einni helstu umferðarmiðstöð í Bagdad. Enginn hefur enn lýst ódæðinu á hendur sér en sprengingin kemur í kjölfar þess að Naru al-Maliki, forsætisráðherra Íraks setji það efst á stefnuskrá nýrrar stjórnar í Írak, að vinna bug á ofbeldi í höfuðborginni.

Bush bandaríkjaforseti og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ræddu málefni Íraks í gær og sögðu ofbeldið sem hefur verið í Írak undanfarnar vikur, aðeins skerpa vilja íraskra stjórnvalda, sem og þeirra landa sem halda úti herliði í landinu til að koma á varanlegum friði í landinu.

Blair fundaði fyrr í vikunni með al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sem sagði íraska þjóðvarðliða verða reiðubúna til að tryggja stöðugleika í landinu frá árslokum 2007. Bush og Blair voru hins vegar sammála um að alþjóðlegt herlið myndi ekki yfirgefa Írak fyrr en yfirmenn herafla landanna tveggja teldu Íraka tilbúna til að halda uppi friði í landinu.

Bush og Blair viðurkenndu jafnframt að mörg mistök hafi verið gerð í tengslum við innrásina í Írak, þau alvarlegustu hafi verið pyntingarnar í Abu Graib fangelsinu. Hvorugur leiðtoganna hefur nokkurn tíma viðurkennt opinberlega og svo hreinskilnislega að mistök hafi átt sér stað. Þeir funda áfram í Hvíta húsinu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×