Viðskipti innlent

Afkoma ríkissjóðs betri en gert var ráð fyrir

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs eftir fyrri árshelming 2006 sýnir að handbært fé frá rekstri jókst um 29,7 milljarða króna innan ársins. Er það sextán milljörðum hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra og 35 milljörðum króna meira en gert var ráð fyrir í áætlun.

 

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 183 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins sem er rúmum 17 milljörðum króna meira en á sama tíma í fyrra. Raunaukning skatttekna og tryggingargjalda var 8 prósent að teknu tilliti til hækkunar almenns verðlags.

 

Skattar á tekjur og hagnað námu 65 miljörðum króna og jukust um 16 milljarða, eða um 33 prósent, frá síðasta ári. Þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um 12 prósent, lögaðila um 98 prósent og fjármagnstekjuskattur um 43 prósent. Innheimta eignarskatta nam 5,5 milljörðum króna sem er 27 prósent minna en á sama tímabili í fyrra.

 

Innheimta almennra veltuskatta nam 82 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 10 prósent að nafnvirði eða 4 prósent umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Í Vefriti Fjármálaráðuneytsins segir að vegna lagabreytinga sem fela í sér rýmri greiðslufrest á virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum fari marktækni samanburðar við fyrra ár eftir því hvaða tímabil innan ársins sé til skoðunar. Sé litið á hreyfanlegt meðaltal nokkurra mánuða komi fram að verulega hafi þó hægt á raunvexti tekna af sköttum sem lagðir eru á vöru og þjónustu.

 

Greidd gjöld nema 153, 2 milljörðum króna og hækka um 0,8 prósent milli ára. Vaxtagreiðslur lækka um 7,7 milljarða, einkum vegna þesss að stór flokkur spariskírteina var á innlausn í apríl í fyrra. Að vöxtunum undanskildum hækkuðu gjöldin um 8,9 milljarða eða um 6,1 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×