Lífið

Draugalög og hestasöngvar

Hestamennska og söngur hefur löngum farið saman Jón Svavar og félagi hans Sælimon frá Stokkseyrarseli.
Hestamennska og söngur hefur löngum farið saman Jón Svavar og félagi hans Sælimon frá Stokkseyrarseli.

Barítónsöngvarinn Jón Svavar Jósefsson heldur all sérstaka tónleika ásamt píanóleikaranum Helgu Bryndísi Magnúsdóttur í Dalvíkurkirkju í kvöld en þar verður lögð áhersla á drauga- og hestalög. Á efnisskránni eru til að mynda klassísk hestalög eins og "Sprettur" og "Á Sprengisandi" í krassandi flutningi en að sögn Jóns Svavars verður skrautfjöðurin líklega "Draugadans" Jóns Leifs. "Það er all sérstakt lag sem ekki allir þekkja en draugalegt er það," úskýrir hann. Auk þess flytja Jón Svavar og Helga Bryndís nokkrar aríur og átthagalög.

Jón Svavar stundar nám í óperudeild Tónlistarháskólans í Vín í Austurríki en á sumrin járnar hann hesta og kveðst hafa af því gaman. "Það er góð tilbreyting," útskýrir hann. "og það er líka yndislegt að syngja í hesthúsum, þar er góður hljómur og hestarnir eru prýðisáheyrendur - hvort sem þeim líkar það betur eða verr."

Hestamennskan er sameiginlegt áhugamál Jóns og Helgu en hún starfar sem organisti og kórstjóri í Möðruvallasókn og í Svarfaðardal. Helga Bryndýs lauk kennara- og einleiksprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 og stundaði síðar framhaldsnám í Vínarborg og Helsinki. Helga hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið til dæmis Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Caput-hópnum.

Næstkomandi fimmutdagskvöld halda Jón Svavar og Helga tónleika steinsnar frá höfuðborginni en þá koma þau fram á Draugasetrinu á Stokkseyri. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og er frítt inn á þá báða fyrir drauga og ófermda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.