Lífið

Krókódíla-Steve látinn

Stingskata Stingskata varð Steve Irwin að bana í köfunarferð í gær.
Stingskata Stingskata varð Steve Irwin að bana í köfunarferð í gær.

Ástralska sjónvarpsstjarnan Steve Irwin, eða Krókódílaveiðimaðurinn, lést eftir að stingskata stakk hann í brjóstið í köfunarferð í gær.Irwin, sem var 44 ára gamall, var við vinnu á nýrri heimildarmynd um kóralrif undan ströndum Norðaustur-Queenslands, þegar atvikið átti sér stað.

Irwin hafði helgað líf sitt gerð sjónvarpsefnis um krókódíla og önnur óargadýr og þótti mörgum hann vera einum of fífldjarfur í nágrenni villidýranna. Varð það honum að bana í gær þegar hann synti of nálægt einni skötunni.

Hafa þær eitraðan gadd á halanum sem þær beita ósjálfrátt ef þær verða hræddar. Aðeins er þó vitað til þess að einn maður hafi látist af völdum skötunnar í Ástralíu, fyrir 61 ári. Irwin lést nær samstundis. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Til merkis um fífldirsku Irwins þá vakti hann hörð viðbrögð víða um heim þegar hann hélt á eins mánaðar gömlum syni sínum aðeins einum metra frá krókódíl fyrir nokkrum árum. Töldu margir að hann hefði farið algjörlega yfir strikið með athæfinu.

Irwin var þekktur fyrir sjónvarpsþátt sinn The Crocodile Hunter sem hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni Animal Planet. Hann var einnig tíður gestur í kvöldþætti Jay Leno og átti þar auðvelt með að vekja athygli fólks á hinum ýmsu dýrum, enda afar hress náungi að eðlisfari. n






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.