Erlent

Fangarnir ekki fundnir

Ekkert hefur spurst til tuttugu og þriggja stórhættulegra fanga sem struku úr fangelsi í Jemen á föstudaginn. Óttast er að þeir hyggist fremja hryðjuverk á næstunni.

Alþjóðalögreglan Interpol hefur gefið út viðvörun vegna fanganna. Þrettán þeirra eru félagar í al-Qaida og áttu þátt í sprengjuárásum á frönsk og bandarísk herskip árin 2000 og 2002. Fangarnir grófu eitt hundrað og áttatíu metra löng göng út úr fangelsi í Sena, höfuðborg Jemen, og komu upp í mosku rétt við fangelsið.

Lögregla hefur síðan um helgina leitað mannanna um alla borg og sett upp leitarstöðvar við endamörk borgarinnar. Þá sveima herflugvélar yfir borginni og öllum þeim stöðum þar sem talið er hugsanlegt að mennirnir haldi sig.

Óttast er að hópurinn ætli að láta að sér kveða á næstunni. Nöfn, myndir og fingraför hafa verið afhent Interpol og er mannanna leitað um allan heim.

Flóttinn þykir ótrúlegur, enda er fangelsisins mjög vel gætt og allt í kringum það eru vopnaðir verðir á vakt allan sólarhringinn. Þess vegna hafa yfirvöld hafið víðtæka rannsókn á því hvort leyniþjónustumenn í Jemen hafi hugsanlega aðstoðað mennina við flóttann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×