Erlent

Danir krefja Írana um vernd

Mótmælendur ráðast á sendiráð Dana í Teheran.
Mótmælendur ráðast á sendiráð Dana í Teheran. MYND/AP

Danir krefjast þess að írönsk stjórnvöld verji danska sendiráðið í höfuðborginni Teheran og starfsfólk þess með öllum tiltækum ráðum. Mótmælendur hafa tvívegis látið grjóti og eldsprengjum rigna yfir sendiráðið til að láta í ljós óánægju sína með birtingu skopmynda af Múhameð í Jótlandspóstinum.

Danir hafa lagt fram formleg mótmæli til stjórnvalda í Teheran. Per Stig Moller, utanríkisráðherra Dana, hafði samband við starfsbróður sinn í Íran og krafðist þess að allt yrði gert til að verja sendiráðið og líf þeirra Dana sem væru í landinu. Íranir yrðu gerðir ábyrgir fyrir þeim skaða sem yrði vegna mótmælanna.

Eldsprengjur og grjóthnullungum dundu á danska sendiráðinu í gærkvöld og var það í annað skiptið þann dag sem mótmælendur þar í borg skeyttu skapi sínu á byggingunni og nágrenni hennar. Um það bil 400 mótmælendur söfnuðust þar saman og þurfti lögregla að beita táragasi til að dreifa mannfjöldanum.

Að minnsta kosti 9 mótmælendur slösuðust í hamaganginum. Eldur kviknaði í tveimur trjám í garði sendiráðsins þegar Molotov-kokteilum var kastað í þau. Eldur var auk þess lagður að hliði sendiráðsins. Danska utanríkisráðuneytið segir ekkert sendiráðsstarfsfólk í byggingunni en sendiráðinu var lokað á sunnudag.

Talíbanar hafa hvatt til þess að múslimar heims taki þátt í heilögu stríði gegn Dönum. Talsmaður þeirra í Afganistan sagði í samtali við þýsku fréttastofuna DPA að Talíbanar þar ætluðu sér að ræna dönskum hermönnum þar.

Anders Fogh Rassmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Per Stig Moeller funda með utanríkismálanefnd danska þingsins í dag vegna ástandsins og síðan hefur verið boðað til blaðamannafundar með ráðherrunum.

Lögreglan í Tyrklandi handtók í dag 16 strák fyrir morð á kaþólskum presti frá Ítalíu á sunnudag. Strákurinn segist hafa reiðst svo vegna myndanna af Múhameð spámanni og því hafi hann skotið prestinn þar sem hann baðst fyrir í kirkju sinni í borginni Trabzon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×