Erlent

Fólk enn hrætt í Bagdad þrátt fyrir kyrrð í morgun

Írakskur lögreglumaður gætir kvenna sem kaupa eldsneyti á markaði í Bagdad í morgun.
Írakskur lögreglumaður gætir kvenna sem kaupa eldsneyti á markaði í Bagdad í morgun. MYND/AP

Þriggja daga samfelldu útgöngubanni var aflétt í Bagdad í morgun. Hræðsla er þó enn ofarlega í huga fólks og margir óttast að kyrrðin í morgun sé bara lognið á undan storminum.

Hingað til hafa það einkum verið tveir hópar uppreisnarmanna sem hafa staðið að árásum í Írak. Annars vegar þjóðernissinnaðir Súnníar sem finnst þeir engu fá ráðið um framtíð Íraks eftir að Saddam Hússein var steypt af stóli. Svo eru það hryðjuverkamenn úr röðum al-Kæda, sem einkum koma frá Sýrlandi.

Eftir vel heppnaðar kosningar í desember bundu menn vonir við að þjóðernissinnarnir myndu láta af árásum í bili og því gætu öryggissveitir einbeitt sér að erlendum hryðjuverkamönnum. Eftir árásina á al-Askari moskuna, einn heilagasta stað Sjía, í síðustu viku, virðast þessar vonir foknar út í veður og vind.

Meira en tvö hundruð manns hafa týnt lífi í Írak undanfarna fimm daga í hrinu árása. Síðast í gær létust sextán og nærri fimmtíu slösuðust í sprengjuvörpuárás á íbúðarhverfi Sjía í suðvesturhluta Baghdad. Eftir árásina á al-Askari hefur andrúmsloftið í Írak verið rafmagnað og borgarastyrjöld virst í aðsigi.

Höfuðborgin iðaði ekki beinlínis af lífi í morgun, en engu að síður virtust flestir tilbúnir til að hefja dagleg störf á ný, eftir sannkallað upplausnarástand síðustu fimm dagana. Útgöngubannið virðist hafa haft tilætluð áhrif og gefið lögreglu- og hermönnum svigrúm til að lægja öldurnar í höfuðborginni. Af fenginni reynslu óttast þó margir að kyrrðin sé ekki komin til að vera. Átökum Sjía og Súnnía sé hvergi nærri lokið og rólegheitin í morgun séu aðeins lognið á undan storminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×