Innlent

Kárahnjúkastífla síar aurinn úr vatninu og lekur nær ekkert

Landsvirkjunarmenn segja að Kárahnjúkastífla leki svo lítið að það teljist nánast á heimsmælikvarða. Svo þétt er stíflan að hún síar aurugasta vatn landsins nógu vel til að drekka má þá fáu lítra sem sleppa í gegn.

Hálslón er ísi lagt þessa dagana. Ísinn er þó ótraustur við bakkana enda hækkar vatnsyfirborðið um tíu sentímetra á dag. Vatnshæðin er orðin tveir þriðju af endanlegri hæð og leggst nú með gríðarlegum þunga á Kárahnjúkastíflu. Þar vinna starfsmenn Impregilo þessa dagana að því að steypa síðasta hluta steypukápunnar. Lónið er þegar komið tíu metra upp fyrir þá hæð sem þarf til að reka virkjunina.

Þrýstingur lónsins á neðsta hluta stíflunnar nemur nú 120 tonnum á hvern fermetra. Lekinn í gegn nemur hins vegar aðeins um átta lítrum á sekúndu. Talsmenn Landsvirkjunar, sem lesa reglulega af mælitækjum inni í stíflunni, eru himinlifandi með hversu vel hún reynist.

Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Kárahnjúkavirkjunar, segir lekann það lítinn miðað hve þrýsingurinn sé orðinn mikill að það sé nánast á heimsmælikvarða. Það sé vart hægt að tala um leka. Athygli vekur hversu tært vatnið er sem lekur undan stíflunni, í ljósi þess að það kemur úr aurugasta fljóti landsins. Það er raunar svo tært að stjórnarformaður Landsvirkjunar stóðs ekki mátið að fá sér sopa. Stíflan virðist það þétt að hún síar aurinn úr vatninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×