Innlent

Kampavínið hvarf í göngunum

Ekkert varð af því að þyrstir gestir gætu vætt kverkar sínar í kampavíni, til að fagna því að síðasta haftið í Kárahnjúkagöngum var rofið í gær, því kampavínið var horfið þegar til átti að taka.

Nokkrir tugir gesta höfðu þá aftur lagt á sig klukkustundar ferð á hörðum bekkjum í hastri jarðlest í raka og hita því þeir þurftu frá að hverfa í fyradag eftir að risaborinn, sem átti að ljúka verkinu þá, bilaði.

Í ljósi þeirrar reynslu var það að vonum að gestirnir biðu þess með enn meiri óþreyju en ella, að teiga kalt kampavínið áður en hossast yrði í lestinni til baka en þá fanst ekki dropi af víninu sem flutt hafði verið inn í göngin í fyrradag. Einu veigarnar sem fundust voru kók og appelsín en gestirnir fundu sig ekki í því að skála fyrir stórviðburði í viðlíka glundri, þannig að svipmót hátíðarhaldanna varð með nokkuð öðrum hætti en til stóð.

Með öllu er óljóst hvað gerðist þarna í iðrum jarðar, 150 metrum undir yfirborði Þrælahálsins, í fyrrinótt en lausasagnir herma að óvenju bjart hafi verið yfir bormönnnunum sem unnu alla nóttina við að rífa borinn sem lokið hafði hlutverki sínu en þeim megin haftsins var kampavínið geymt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×