Viðskipti innlent

Með skrifstofur í fimm löndum

Steingrímur Wernersson, stjórnarmaður í Öskum, Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri og Karl Wernersson forstjóri Milestone.
Steingrímur Wernersson, stjórnarmaður í Öskum, Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri og Karl Wernersson forstjóri Milestone. MYND/GVA

Fjárfestingarbankinn Askar Capital hefur starfsemi um næstu áramót. Bankinn verður með höfuðstöðvar í Reykjavík, en skrifstofur í Lúxemborg, Lundúnum, Búkarest og Hong Kong að auki. Bankinn starfar á vettvangi fyrirtækja og stórviðskipta, en sinnir ekki einstaklingsviðskiptum, þ.e. svokallaðri heildsölubankastarfsemi.

Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri bankans, kynnti starfsemi hans, stjórn og lykilstjórnendur á blaðamannafundi á Grand Hóteli Reykjavík í hádeginu í gær. Milestone er kjölfestufjárfestir í bankanum, sem verður við stofnun með 11 milljarða króna eigið fé og 40 til 45 starfsmenn. Auk þess að hafa Milestone sem bakhjarl rennur inn í bankann starfsemi Ráðgjafar og efnahagsspár ehf. sem stofnað var árið 1993, Aquila Venture Partners og fjármögnunarstarfsemi Sjóvar.

Þannig segir Tryggvi að bankinn hafi strax í byrjun nokkurn grunn viðskiptavina.

Karl Wernersson, forstjóri og aðaleigandi Milestone, upplýsti að virkur undirbúningur að stofnun bankans hafi ekki staðið í nema þrjá mánuði. „En segja má að við Milestonemenn höfum verið að skoða þetta í allt að 18 mánuði. Lokaspretturinn hefur verið snarpur og við mjög stolt af því að hafa fengið mjög öfluga liðsmenn til bankans, bæði hluthafa og í hóp lykilstjórnenda,“ segir hann. Stjórnendur bankans vildu ekki hafa mörg orð um hvaða markmið þeir hefðu sett sér í rekstrinum, en segjast þó ætla að vera við lok fyrsta starfsárs stefna á að vera með eignir fyrir 200 milljarða króna í stýringu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×